Ferill 536. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1001  —  536. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að koma til móts við ábendingar alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem settar eru fram í skýrslu um Ísland í apríl 2018?

    Dómsmálaráðherra hefur þegar sett af stað vinnu í dómsmálaráðuneytinu sem miðar að því að bregðast við ábendingum alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hefur ráðuneytið unnið greiningu á því hvaða breytingar þarf að ráðast í og útbúið drög að aðgerðaáætlun. Helstu aðgerðir sem þarf að grípa til eru lagabreytingar, aukin samvinna og samráð og innleiðing upplýsingatæknikerfa. Sumar þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í kalla á aukna fjármuni og er gert ráð fyrir auknum fjárframlögum til málaflokksins í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019–2023 sem lögð var fram á Alþingi 4. apríl í vor.
     Lagabreytingar: Hinn 1. maí sl. voru drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins til umsagnar. Frumvarpið er innleiðing á fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins og mun innleiðing hennar koma að miklu leyti til móts við ábendingar FATF varðandi úrbætur á lagaverki. Gert er ráð fyrir því að frumvarpið verði lagt fram á komandi haustþingi.
    Unnið verður að öðrum lagabreytingum á næstu mánuðum en fyrir liggur að gera þarf breytingar á ýmsum lagabálkum sem kallar á samvinnu ráðuneyta. Gert er ráð fyrir að leggja fram þær lagabreytingar á næsta þingi.
     Samvinna og samráð: Málaflokkurinn heyrir undir fjögur ráðuneyti, dómsmálaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og utanríkisráðuneytið, auk þess sem fjöldi stofnana á hlut að máli. Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, utanríkisráðuneytið ber ábyrgð á lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunarráðstafana og stofnanir sem hafa eftirlit með lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti o.fl. heyra stjórnskipulega annars vegar undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og hins vegar undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Í ljósi þessarar dreifðu ábyrgðar er mikilvægt að tryggja samvinnu og samráð milli allra þeirra opinberu aðila sem eiga hlut að máli og er það gert með stýrihópi um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í lok síðasta árs var skipað að nýju í stýrihópinn þar sem hlutverk hans var víkkað út bæði hvað varðar verkefni og aðild. Í drögum að frumvarpi til nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er gert ráð fyrir að lögfesta stýrihópinn og verkefni hans (39. gr.) auk þess sem gert er ráð fyrir aukinni samvinnu milli eftirlitsaðila og stjórnvalda sem koma að málaflokknum (40. gr.).
    Með lögfestingu stýrihópsins og verkefna hans er ætlunin að tryggja yfirsýn yfir málaflokkinn, markvissara samráð og samhæfingu aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Stýrihópurinn mun m.a. vinna að gerð áhættumats, taka þátt í breytingum á regluverki, gefa út fræðsluefni og halda fræðslufundi.
     Upplýsingatæknikerfi: Stefnt er að innleiðingu nýs upplýsingatæknikerfis hjá peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara seinna á árinu sem mun auðvelda og hraða vinnslu og greiningu tilkynninga sem skrifstofunni berast auk úrvinnslu tölfræðiupplýsinga.